Aðeins um mig 7. janúar 1976 fæddist stór og hraustlegur drengur á sjúkrahúsinu á Ísafirði en það sem enginn vissi þá var að þessi drengur var í raun og veru stelpa með sjaldgæfan fæðingalla. Þrátt fyrir að hafa alist upp sem strákur þá átti ég mjög góða æsku en það var reyndar ekki fyrr en ég komst á unglingsárin að ég uppgvötaði að ég væri ekki eins og flestir strákarnir, hafði einhverja óútskýranlega þörf fyrir að klæðast stelpufötum sem ég reyndi að bæla niður eftir bestu getu með misgóðum árangri. Það var reyndar ekki fyrr en ég var orðin 38 ára að ég áttaði mig á því að ég gæti ekki lifað lengur sem karlmaður og tók þá ákvörðun að leiðrétta kyn mitt.

Eins og margar transkonur þá reyndi ég að vera eins mikill karlmaður og hægt er en það er vel þekkt á meðal okkar. Hef ég alltaf verið mikið í bílabraski og ég var rétt komin með bílpróf þegar ég gerði upp minn fyrsta bíl til dæmis, fór í skotveði og veiddi mikið á tímabil, allt til að reyna að bæla niður hvatir sem ég skildi ekki. Ég hef unnið við hin ýmsu störf í gegnum tíðna sem tengjast öll iðnaði en þó mest við rennismíði eða um 20 ár.

Síðustu tvö sumur hef ég unnið sem leiðsögukona á kayak bæði hér heima og á Grænlandi og ætla mér að gera það að fullu starfi ásamt því að halda fyrirlestra um kynleiðréttingarferlið sem ég gekk í gegnum, hvernig ég fór frá því að vera virkilega óhamingjusöm kona föst í karlmannslíkama yfir í að vera virkilega hamingjusöm kona sem er sátt í eigin skinni og nýtur lífsins hvern einasta dag.

Mín helstu áhugamál og ástríða eru kayak, skíði og hjólreiðar og reyni ég að stunda það eins mikið og hægt er og er dugleg að draga börnin mín með mér. Það er mér mjög mikilvægt að vera þeim góða fyrimynd sem ég tel mig loksns geta verið þeim í dag.

En á þessum tveimur myndum má sjá smá breytingar sem hafa orðið á mér á síðustu 4 árum. Myndinn til Hægri er sú síðasta sem var tekin af mér í karlmannsfötum.