Monthly Archives

október 2019

Fyrirlestrar í boði

By | Fyrirlestrar | No Comments

Á móti straumnum

Einstök saga konu í líkama karls
Saga mín er saga konu sem var föst í líkama karls í 38 ár.
Í þessum einlæga og persónulega fyrirlestri fer ég yfir það hvernig það var að vera barn, unglingur og fullorðin og burðast alltaf með leyndarmálið um það hver ég var. Hvernig feluleikurinn bugaði mig að lokum og varð að þunglyndi og sárum hugsunum um að deyja frekar en lifa áfram í mínum líkama.
Ég horfðist í augu við sjálfa mig, viðurkenndi eigin tilfinningar, sjálfsmynd og fordóma og fór í kynleiðréttingu með öllum þeim aðgerðum og meðferðum sem því fylgja. Líf mitt hefur ekki alltaf verið dans á rósum en nú hef ég fylgt hjartanu og er í dag hamingjusöm kona. Reynslan hefur kennt mér margt og eitt af því er að gefast ekki upp þótt á móti blási.
Ég segi frá lífi mínu á einstakan og einlægan hátt og það er stutt í húmorinn enda uppákomurnar margar háalvarlegar og svo alvarlegar að ekki er hægt annað en að brosa. Hvað segir maður t.d. í sturtu í kvennaklefanum í sundlauginni þegar barnið manns kallar „pabbi!“
Sagan mín er saga sem á erindi til allra og snertir alla.

 

Í gegnum brimskaflinn

Það er margt sem geri mig að einstakri manneskju. Ég hætti að lifa sem karlmaður og fór að lifa sem sú konan sem ég hafði allltaf verið og leiðrétti kyn mitt, reri rangsælis á kajak umhverfis landið á móti ríkjandi straumnum og vindi. Ég varð þar með ekki aðeins fyrsta íslenska konan til að róa hringinn í kringum landið heldur einnig fyrsta transkonan í heiminum til að vinna slíkt þrekvirki. Fyrir utan átökin við náttúruöflin, brimið, hvalina, refina og jökulárnar, tókst ég á við sjálfa mig, samfélagið, kynhlutverkið, fordómana og lífið. Ég uppgötvaði í þessu ferli að „ég er bara nóg“. Hvar sem ég kom að landi var mér hlýlega tekið og mínir eigin fordómar um viðhorf gagnvart mér, transkonunni, reyndust ekki réttir. Í þessum fyrirlestri segir ég frá ferðalaginu bæði í bátnum og í lífsins ólgu sjó.  Saga mín er átakasaga einstaklings sem tókst á við sjálfa sig og er í dag hamingjusöm.

 

Fyrirspurnir og bókanir. veiga@veiga.is

 

Vitnisburður

By | vitnisburður | No Comments

Mig langar að þakka kærlega fyrir frábært erindi Veigu Grétarsdóttur í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum. Erindið var algjörlega magnað, bæði fróðlegt og grípandi. Veiga náði salnum algjörlega frá fyrstu mínútu og hleypti áheyrendum með í gegnum líf hennar sem bæði hefur verið súrt og sætt, sorglegt og gleðilegt. Erindið mæltist mjög vel fyrir hjá nemendum og  starfsfólki og á erindi við okkur öll. Það var samdóma álit þeirra starfsmanna og nemenda sem á hlýddu á erindið að það hafi verið frábært og margir sem sögðu að þetta væri eitt besta erindið sem þau hefðu hlustað á. 

Með kærri kveðju.

Thelma B. Gísladóttir  aðstoðarskólameistari Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum.

 

Veiga kom til okkar í Lionsklúbbi Patreksfjarðar og flutti erindi sitt ,, Á móti straumnum”. Erindið var virkilega áhugavert og aðdáunarvert hvað hún var opinská um allar sýnar lífsraunir . Það var virkilega gaman að sjá hvað
hún náði salnum strax frá fyrstu mínútu og braut ísinn, allt í einu voru menn orðnir ófeimnir að spyrja hina ýmsu spurninga. Erindið var fræðandi og virkilega skemmtilegt og sýnir manni á sama tíma hvað það er nauðsynlegt að
allir fái að vera þeir sjálfir og blómstra. Við mælum klárlega með erindinu ,,Á móti straumnum”

Kveðja

Strákarnir í Lionsklúbbi Patreksfjarðar.

 

Veiga kom til okkar í vöruþróun Marel og flutti erindið sitt „Á móti straumnum: Einstök saga konu í líkama karls“Saga Veigu var átakanleg en með einlægni og “dash” af húmor fór hún yfir baráttu sína við sjálfa sig og hvernig henni tókst að komst yfir eigin hindranir. Veiga var mjög opniská og náði góðu samtali við hópinn og gaf þannig dýpri innsýn í líf sitt. Hvetjandi erindi um að hlusta á sitt innra sjálf og að fylgja draumum sínum.    

Takk fyrir okkur

Vöruþróun Marel

 

Veiga kom til okkar í hádeginu og sagði sögu sína. Frásögnin snerti alla sem sátu í salnum og það kom skemmtilega á óvart að spurningaflóðið helltist yfir Veigu að frásögn lokinni. Saga hennar snerti alla í salnum og var sérstaklega áhugavert að skynja þessa skírskotun hennar hvernig kayakferðin hringinn í kringum Ísland endurspeglaði hennar lífsferðalag á móti straumnum.

 

 

Hún Veiga kom til okkar með hádegisfyrirlestur og fjallaði um þegar hún gerði sér lítið fyrir og réri á kayak rangsælis í kringum Ísland í sumar og varð þar með fyrsta íslenska konan til að róa hringinn og fyrsta allra að róa hringinn rangsælis. Hún gerði þetta til styrktar Píeta samtökunum sem eru samtök sem starfa í að aðstoða fólk í sjálfsvígshættu en BYKO var einn af styrktaraðilum í þessu verkefni. Auk þess að fjalla um þessa ferð sína þá fjallaði fyrirlesturinn  um reynslu hennar af því að ganga í gegnum kynleiðréttingaferli og þá erfiðleika sem hún gekk í gegnum þá en á þeim tíma reyndi hún sjálf að taka líf sitt. Skemmst er frá því að segja að metmæting var á fyrirlesturinn og mikið spurningarflóð frá viðstöddum. Virkilega flottur fyrirlestur um djúpa dali og mikla sigra. Veiga fær okkar bestu meðmæli.

 

Veiga Grétarsdóttir kom og talaði við alla nemendur í 8., 9. og 10.bekk í Hagaskóla. Hún náði mjög vel til nemenda, þannig að í 200 nemenda hópi mátti heyra saumnál detta. Sagan hennar er mjög áhugaverð og á fullt erindi til nemenda. Hún er bæði fræðandi og hvetjandi, Veiga hefur náð markmiðum sínum á svo margan hátt og er hvatning til nemenda að láta drauma sína rætast og gefast ekki upp. Hún kemur líka inn á fordóma og mikilvægi þess að öll fáum við að vera eins og við erum. Veiga er mjög opin og heiðarleg og nemendur höfðu orð á því að hún talaði við þau eins og fólk.

Sigríður Birna Valsdóttir fjölskyldufræðingur, nemendaþjónusta Hagaskóla