English below
Loksins gat ég gefið mér tíma til að setjast niður og skrifa hvernig byrjunin á ferðinni hefur verið. Það var æðislegt að geta byrjað í svona góðu veðri eins og var á þriðjudaginn og ekki skemmdi fyrir allt fólkið sem kom og kvaddi mig þegar ég lagði í hann og verð ég að viðurkenna að ég var virkilega djúpt snortin yfir því. Einnig var það mjög svo sérstök tilfinning sem ég upplifði þegar ég réri af stað, veifaði fólkinu bless og hugsaði til þess að ég kæmi ekki aftur heim fyrr en ég væri búin að róa allan hringinn. Má segja að ég hafi verið með gæsahúð yfir þessu öllu saman.
Það voru tveir heimamenn sem fylgdu mér úr höfn en einnig kom einn að sunnan til að róa með mér fyrstu dagana og er ég virkilega þakklát fyrir það en sá góði drengur heitir Örlygur
En eins og ég sagði þá fengum við æðislegt veður fyrsta daginn og rérum við um 50 km og áttum næturstað á Ingjaldssandi. Á þeim legg stoppuðum við tvistar til að teygja úr okkur og næra okkur aðeins en það var fínt í sjóinn allan tíman nema þegar við fórum fyrir Deildina og Göltinn en var Deildin ívið verri. Hún Betty á Ingjaldssandi tók vel á móti okkur og var virkilega gaman að heimsækja hana og vildi hún allt fyrir okkur gera.
Dagur tvö var einnig virkilega góður þrátt fyrir regn seinni partinn en svo brast á með hellirigningu seinna um kvöldið þegar við rérum við frá Ingjaldssandi í Selárdal í Arnafirði sem kannski hvað þekktastur fyrir Gísla á Uppsölum og Samúel listamann. Fínasta veður og sjólag þennan daginn nema fyrir Barðann – en við því mátti búast.
Svo í gær þá rérum við frá Sélardal yfir í Hænuvík í sunnanverðum Patreksfirði og byrjaði sá dagur vel, vorum með vind og straum með okkur út Arnafjörðinn og fyrir Kópinn og ætluðum við að taka land þegar við værum komin fyrir Kópinn en leist ekkert á það þannig að við ákváðum bara að þvera fjörðinn strax en lentum við fljótlega í brælu, vindur yfir 10 metrar á sekúndu og ölduhæð um einn meter og gekk ferðin hægt en við komust á leiðarenda. Alla þessa daga erum við búin að róa með straum og á móti og hefur ferðahraðinn verið frá 8-9 km á klst niður í rétt rúmlega 2 km.
Það sem stendur kannski hvað hæst upp úr af þessum þremur dögum er hvað við eigum fallegt land og mikið af þessu hef ég séð áður en ekki frá sjó og er það alveg einstök upplifun. Einnig erum við búin að hitta trillukarla í nánast öllum fjörðum og hafa þeir verið mjög hjálpsamir að miðla sinni þekkingu af landi, straumum og veðurspám.
Í kvöld hélt ég svo minn fyrsta fyrirlestur á ferð minni um landið sem gekk bara mjög vel að ég held þó svo að það hafi verið margir sem mættu en ég kenni söngvakeppninni um það. Nú erum við stödd á Grænhóli á Barðaströnd þar sem við fengum lánaðan sumarbústað og erum að plana næstu daga ásamt að þurrka tjald og annan búnað eftir rigninguna síðustu nótt.
Plan fyrir næstu daga er að slaka á í dag og reyna að gera við þurrgallann minn en ég fann á fyrsta degi að hann lak og hef ég verið blaut á vinsta fæti sem er ekki gott en svo verður haldið áfram á morgun og þá er planið að róa frá Hænuvík yfir í Látravík og gista þar eina nótt. Svo á sunnudeginum ætlum við að fara fyrir Látrabjarg og yfir á Rauðasand og gista þar eina nótt, þaðan ætlum svo að fara yfir á Brjánslæk og reyna svo að þvera Breiðafjörðinn daginn eftir með viðkomu í Flatey.