English below
Ég kom til Stykkishólms um miðjan dag í gær og ætla að taka einn hvíldardag í dag. Ég verð að viðurkenna að ég er orðin pínu lúin og með aumar hendur þar sem ég hef fengið fimm blöðrur á hendurnar og tvær af þeim eru orðnar að sárum og erfitt að kreppa fingurna fyrst á morgnana. En það beið mín hótelherbergi þegar ég kom hingað, ég byrjaði reyndar á að fara í sund og pottana og fá mér að borða en svo hélt ég fyrirlestur í grunnskólanum hér á Stykkishólmi sem gekk mjög vel þó svo að það hafi ekki verið margir sem mættu. En mikið var svo gott að fá herbergi þar sem ég get þurrkað dótið og hlaðið allan rafbúnað og tala nú ekki um að fá að sofa í góðu rúmi og vil ég þakka þeim hjá Fransiskus fyrir að taka á móti mér.
Mér tókst að gera við þurrgallann minn og hef verið þurr í fæturna sem er mjög gott.
Róðurinn frá Hænuvík yfir í Látravík gekk mjög vel, var reyndar ekki nema um 25 km og var léttur og skemmtilegur róður, stilltur sjór og hæglætis veður en það var smá hafalda og fundum við aðeins fyrir henni þegar við fórum fyrir Bjarnarhnúpinn rétt áður en við komum í Látravíkina en þar var frekar straumþungt og þegar hafaldan skellur á klettaveggjum og kastast til baka þá verður þetta að einskonar suðupotti, öldurnar koma úr öllum áttum og gerði þetta að skemmtilegum en krefjandi róðri. Það sem eftir var dags fór í að koma sér fyrir, næra sig og spá i veður og strauma því Látrabjarg var plan morgundagsins en þar skiptir miklu máli að fara á réttu falli því straumþunginn getur verið mikill þar.
Eftir að hafa talað við Guðna Pál sem réri hringinn 2013 og þekkir vel hvað ég er búin að koma mér útí þá var ákveðið að við skyldum leggja í hann um kl 12 á hádeigi, rétt fyrir fallaskipti.
Fyrstu 2 km vorum við með strauminn með okkur og náðum miklum skriði að Látraröstinni en hún var ekki eins slæm og ég bjóst við gekk mjög vel að fara fyrir Bjargtanga en það sem kom á eftir henni er varla hægt að lýsa með orðum. Ég hef komið á Látrabjarg nokkrum sinnum og alltaf fundist það tilkomumikið en að sjá það frá sjó og tala nú ekki um að vera á litlum kayak rétt undir bjarginu er mögnuð upplifun. Það var smá þokumistur efst í bjarginu sem gerði upplifunina ennþá dramatískari. Ég hef aldrei séð annað eins af fuglum og gargið í þeim glumdi alla þessa 20 km. Við hittum 2 hópa af sigmönnum sem voru í eggjatínslu og fylgdumst með örðum þeirra slaka eggjakörfum frá bjarginu niður í slöngubáta sem þeir voru á. Þar sem sjór var stilltur tókst mér að fara í land á einum stað og létta á mér en þegar ég leit uppí bjargið sjá ég bjargbrúnina gnæfa yfir mér, þá hugsaði ég með mér að ég skyldi ekki stoppa lengi þarna ef eitthvað skyldi hrynja úr bjarginu. Ég stoppaði alloft til að virða bjargið og fuglalífið fyrir mér og kom það nokkrum sinnum fyrir að ég fékk gæsahúð, þetta var svo tilkomumikið, en á sama tíma drungalegt og maður fann alveg fyrir smæð sinni. Þegar við höfðum róið bæði Látra- og Keflavíkubjarg, sem var ekki síðra, þá stoppuðum við í Keflavík, fengum okkur að borða, kíktum í neyðarskýlið og kvittuðum í gestabókina.
Fljótlega eftir það tók við Rauðasandur, rúmlega 10 km löng sandfjara en við rérum hana á enda og fórum í land rétt hjá Melanesi og gistum þar eina nótt og er einn af mínum uppáhaldsstöðum á landinu.
Daginn eftir var ákveðið að róa eins langt og við gætum inn á Barðaströnd en þann dag var tvísýnt með veður, en við ákvöðum að láta slag standa og sjá hvað við kæmust langt og var ég undir það búin að þurfa að snúa við. Það var stíf austanátt og fundum við vel fyrir henni þegar við komum út fyrir Skor, en engu að síður tókst okkur að að róa um 18 km og enduðum á Siglunesi. Stuttur en frekar erfiður dagur.
Svo á þriðjudaginn var á kveðið að róa til Flateyjar en það var um 40 km löng leið. Við lögðum af stað um tíuleytið um morguninn en eftir um 8 km langan róðu,r ákvað ég að við skyldum fara í land og bíða í um 2 tíma eftir fallaskiptum sem kom svo í ljós að það margborgaði sig því við vorum að róa rúmlega helmingi hraðar eftir það en við höfðum gert fyrr um morguninn.
Svo þegar við áttum um 10 km eftir í Flatey, reif vindur sig upp úr austri og fengum við hann beint í fangið með tilheyrandi streði þessa 10 km.
Þegar við komum í land og fórum að spjalla við eina fólkið sem við sáum í eyjunni, þá endaði spjallið með því að okkur var boðin gisting og vil ég þakka hennu Þóru og fjölskyldu fyrir að taka vel á móti okkur.
Í gær var vaknað um hálf sex því það var langur dagur framundan, ég þurfti að komast til Stykkishólms í tæka tíð því ég átti að halda fyrirlestur klukkan átta um kvöldið og vildi ég vera komin þangað ekki seinna en um fjögurleytið svo ég hefði tíma til að fara aðeins í sund og snyrta mig, borða og slaka aðeins á áður. En þessi dagur endaði í 38 km þar sem við rérum nánast beint í suður í austan hliðarvindi og strauminn líka til að byrja með. Þegar við vorum hálfnuð, þá lægði og datt í blankalogn og sól sem var nánast full mikið af því góða, því manni verður svo heitt að róa í þannig veðri sem gerir það að verkum að maður nennir varla að róa og fer róa hægar en ella. En það varði þó ekki lengi og fengum við stífan austanvind á ný – en það hefði alveg mátt vera millivegur á þessu.
En á þessum tveim síðustu dögum höfum við verið langt frá landi og hafa komið kaflar þar sem eru meir en 10 km í næsta sker. Þá er lítið annað að gera en að horfa á staðsetningartækið og horfa á kílómetra mælinn telja niður í næsta stopp. Maður rær ekki hratt og þegar langt er í næstu landtöku, þá gerist voða lítið á einum klukkutíma, það er að segja að landið virðist nálgast svoooo hægt.
Þetta hafa verið frábærir dagar og það sem stendur kannski einna hæst upp úr hjá mér eru móttökurnar sem ég hef fengið allsstaðar sem ég hef komið og það er tvennt sem ég vil segja frá. Annað er að ég var í viðtali í á Rás 2 og Bylgjunni á sl. föstudag og eftir það viðtal fékk ég skilaboð frá einni konu sem sem var að þakka mér fyrir það sem ég er að gera, opna þessa umræðu og safna fyrir Píeta, en hún hafði reynt að taka sitt líf þrívegis, en er komin á góðan stað í dag og þótti mér vænt um að fá þessi skilaboð frá henni.
Hitt er svo að á mánudaginn fékk ég tölvupóst frá Kayakferðum á Stokkseyri þar sem sú hugmynd kom upp að búa til eina kayakferð þar sem fólki gæfist kostur á kaupa sér kayakferð frá Eyrabakka til Stokkseyrar á sama tíma og ég væri að róa þá leið og myndi allur ágóði af þeirri ferð renna til Píeta og er ég djúpt snortin yfir öllum þeim stuðningi sem þetta verkefni mitt hefur fengið.
Í gær lauk þeim kafla sem Örlygur hefur að róa með en hann hefur verið með mér fyrsta degi og hefur það verið virkilega gott að hafa annan vanan kayakræðara með sér til að spá í veður og strauma og hjálpa manni við ákvörðunartökur. Eins var virkilega gott að hafa félagsskap og góðan ferðafélaga.
En ekki nóg með að hann hafi yfirgefið mig í gær heldur þá fór Óskar Páll líka en hann hefur verið að filma alveg frá fyrsta degi hefur verið að taka viðtöl við okkur Örlyg bæði kvölds og morgna og myndað á öllum þeim stöðum sem hann hefur getað, leigði bát til að geta myndað þegar við rérum undir bjargi og svo aftur þegar við komum í Flatey. Verð samt að viðurkenna að þó þetta sé gaman, spennandi og heiður að það sé verið að gera heimildarmynd um mig og ferð mína í kringum landið að þá tekur það alveg á og er ég alveg pínu feigin að fá að vera ein með sjálfri mér næstu dagana
En plan dagsins er slaka á og undirbúa næsta dag en þá stefni ég a Ólafsvík og ef spáin stenst þá ætti ég að vera fljótt þangað í austanáttinni með fallið með mér en svo er planið að koma sér til Akraness þar sem ég mun halda næsta fyrirlestur og mun hann verða auglýstur þegar nær dregur.
I am deeply moved by all the support for my project.