Dagur 20-25 / Day 20-25

By 7. júní, 2019 Blogg

English will follow up shortly

 

Ekki er ég búin að fara langt síðustu dagana, tók sunnudag og mánudag í frí eftir frekar langa törn þar sem allt gekk eins og í sögu. Annað en hægt er að segja um síðustu daga. Á þriðjudag og miðvikudag var ég veðurteppt þar sem það var mjög stíf norðanátt en hún ekki hagstæð til að róa frá Reykjavík til Keflavíkur. Engu að síður þá var bara mjög gott að fá aðeins lengri pásu því heilsan var ekkert alltof góð en ég var komin með smá hita og í hálsinn.
Á fimmtudaginn var ég orðin góð og ákvað að leggja í hann aftur þó svo að það væri en stíf norðanátt enda orðin óþreyjufull að halda áfram eftir 4 daga stopp.
Gunnar Svanberg hafði samband við mig og vildi róa með mér einn dag sem æðislegt því ekki er verra að vera með félagsskap ef veðrið er ekki upp á sitt besta.
Við lögðum í hann rétt um 11 frá Gróttu og var stefnan tekin eins vestanlega á Vatnsleysuströndina og við treystum okkur til.
Til að byrja með gekk allt vel og vorum við með gott lens og man ég ekki eftir að hafa náð eins miklum hraða og þarna en við vorum að stefna á fjallið Keili og vorum með ölduna og vindinn beint í bakið.
Eftir klukkutíma siglingu þá snéri vindurinn sér aðeins og við gátum stefnt aðeins vestar. Þegar við vorum rúmlega hálfnuð voru öldurnar orðnar ansi stórar og við giskuðum á að stærstu öldurnar hafi verið um og yfir tveir metra.
Var lensið farið að minnka allverulega og við þurftum að eyða mikilli orku í að halda stefnu því aldan kom skáhallt aftan að okkur og voru nokkra sem brotnuðu yfir bátinn hjá mér og þá fann ég vel fyrir þunga vatnsins á lærunum þegar svunta (sem lokar mannopinu) þrýstist niður á mann.
Eftir tæplega 3 tíma róður komum við að landi á Stóru Vatnsleysu og var sú ákvörðun tekinn að halda ekki lengra.
Við fengum okkur bara að borða og spjölluðum við Gumma frænda sem kom í heimsókn til okkar. Síðan kíktum við í heimsókn á bæinn rétt hjá en þar búa eldri hjón, maðurinn íslenskur en kona norsk og fékk ég að spreyta mig á norskunni og komst að því að ég er ekki alveg búin að gleyma henni.
Þegar að Gunnar og Gummi voru farnir skoðaði ég veðurspá og samkvæmt henni átti að lægja rétt eftir miðnætti þannig að ég dreif í því að koma upp tjaldi og fá mér að borða.
Það gekk hálf illa að sofna en það hafðist að lokum en ég vaknaði um hálf þrjú og var ekki alveg til í að koma mér á stað og ákvað að kúra aðeins lengur, tók upp símann og kíkti aðeins á Facebook. Þar sá ég að það eru margir farnir í frí og farnir erlendis og þá kom sú hugsun upp hjá mér hvað ég væri eiginlega að pæla, húkandi í tjaldi illa sofin og á leið út á sjó um miðja nóttu til að geta komist aðeins lengra en ég hafði gert deginum áður. En um leið og ég lagði símann frá mér og byrjaði að klæða mig voru þær hugsanir á bak og burt.
Ég var komin á sjó rétt fyrir fimm og leit allt vel út til að byrja með og gekk ferðin vel en eftir rúmlega hálf tíma siglingu þegar ég var komin út úr víkinni þá tóku stærri öldur á móti mér og ég fór að hugsa um hvort ég ætti að snú við. Ég var samt eiginlega ekki alveg til í það því fjaran var frekar erfið þar sem ég hafði verið, stórgrýtt og brött með mikið af sleipum þara og hafði ég þurft að tæma bátinn alveg til að geta tekið hann upp fyrir flæðamálið. Ég var ekki alveg tilbúin í það aftur þannig að ég ákvað að kíla á þetta og koma mér inn í Voga. Þangað var ég komin þangað eftir rétt rúmlega 2 tíma róður með hliðaröldu mest allan tímann.
Veðrið á að ganga niður í nótt eða fyrramáli og vonast ég til að komast fyrir Garðskagann þá en þangað til ætla ég að hafa það gott hérna í Vogunum. Ég var svo heppin í gær að Gunnar lánaði mér lítinn hátalara þannig ég hef það virkilega kósý í tjaldinu hlustandi á uppáhalds tónlistina mína á Spotify og sötra á Coke og nammi

Leave a Reply