Monthly Archives

June 2019

Dagur 20-25 / Day 20-25

By | Blogg | No Comments

English will follow up shortly

 

Ekki er ég búin að fara langt síðustu dagana, tók sunnudag og mánudag í frí eftir frekar langa törn þar sem allt gekk eins og í sögu. Annað en hægt er að segja um síðustu daga. Á þriðjudag og miðvikudag var ég veðurteppt þar sem það var mjög stíf norðanátt en hún ekki hagstæð til að róa frá Reykjavík til Keflavíkur. Engu að síður þá var bara mjög gott að fá aðeins lengri pásu því heilsan var ekkert alltof góð en ég var komin með smá hita og í hálsinn.
Á fimmtudaginn var ég orðin góð og ákvað að leggja í hann aftur þó svo að það væri en stíf norðanátt enda orðin óþreyjufull að halda áfram eftir 4 daga stopp.
Gunnar Svanberg hafði samband við mig og vildi róa með mér einn dag sem æðislegt því ekki er verra að vera með félagsskap ef veðrið er ekki upp á sitt besta.
Við lögðum í hann rétt um 11 frá Gróttu og var stefnan tekin eins vestanlega á Vatnsleysuströndina og við treystum okkur til.
Til að byrja með gekk allt vel og vorum við með gott lens og man ég ekki eftir að hafa náð eins miklum hraða og þarna en við vorum að stefna á fjallið Keili og vorum með ölduna og vindinn beint í bakið.
Eftir klukkutíma siglingu þá snéri vindurinn sér aðeins og við gátum stefnt aðeins vestar. Þegar við vorum rúmlega hálfnuð voru öldurnar orðnar ansi stórar og við giskuðum á að stærstu öldurnar hafi verið um og yfir tveir metra.
Var lensið farið að minnka allverulega og við þurftum að eyða mikilli orku í að halda stefnu því aldan kom skáhallt aftan að okkur og voru nokkra sem brotnuðu yfir bátinn hjá mér og þá fann ég vel fyrir þunga vatnsins á lærunum þegar svunta (sem lokar mannopinu) þrýstist niður á mann.
Eftir tæplega 3 tíma róður komum við að landi á Stóru Vatnsleysu og var sú ákvörðun tekinn að halda ekki lengra.
Við fengum okkur bara að borða og spjölluðum við Gumma frænda sem kom í heimsókn til okkar. Síðan kíktum við í heimsókn á bæinn rétt hjá en þar búa eldri hjón, maðurinn íslenskur en kona norsk og fékk ég að spreyta mig á norskunni og komst að því að ég er ekki alveg búin að gleyma henni.
Þegar að Gunnar og Gummi voru farnir skoðaði ég veðurspá og samkvæmt henni átti að lægja rétt eftir miðnætti þannig að ég dreif í því að koma upp tjaldi og fá mér að borða.
Það gekk hálf illa að sofna en það hafðist að lokum en ég vaknaði um hálf þrjú og var ekki alveg til í að koma mér á stað og ákvað að kúra aðeins lengur, tók upp símann og kíkti aðeins á Facebook. Þar sá ég að það eru margir farnir í frí og farnir erlendis og þá kom sú hugsun upp hjá mér hvað ég væri eiginlega að pæla, húkandi í tjaldi illa sofin og á leið út á sjó um miðja nóttu til að geta komist aðeins lengra en ég hafði gert deginum áður. En um leið og ég lagði símann frá mér og byrjaði að klæða mig voru þær hugsanir á bak og burt.
Ég var komin á sjó rétt fyrir fimm og leit allt vel út til að byrja með og gekk ferðin vel en eftir rúmlega hálf tíma siglingu þegar ég var komin út úr víkinni þá tóku stærri öldur á móti mér og ég fór að hugsa um hvort ég ætti að snú við. Ég var samt eiginlega ekki alveg til í það því fjaran var frekar erfið þar sem ég hafði verið, stórgrýtt og brött með mikið af sleipum þara og hafði ég þurft að tæma bátinn alveg til að geta tekið hann upp fyrir flæðamálið. Ég var ekki alveg tilbúin í það aftur þannig að ég ákvað að kíla á þetta og koma mér inn í Voga. Þangað var ég komin þangað eftir rétt rúmlega 2 tíma róður með hliðaröldu mest allan tímann.
Veðrið á að ganga niður í nótt eða fyrramáli og vonast ég til að komast fyrir Garðskagann þá en þangað til ætla ég að hafa það gott hérna í Vogunum. Ég var svo heppin í gær að Gunnar lánaði mér lítinn hátalara þannig ég hef það virkilega kósý í tjaldinu hlustandi á uppáhalds tónlistina mína á Spotify og sötra á Coke og nammi

Dagur 15 til 19. / Day 15 to 19.

By | Blogg | 4 Comments

English below

Eftir að hafa verið veðurteppt á Arnarstapa í tæp tvo daga lagði ég í hann aftur seinnipartinn á miðvikudag, það átti að lægja þegar líða tók á daginn sem hann gerði svo.
Það vildi svo vel til að hann Örlygur sem hafi verið að róa með mér fyrstu vikuna var staddur á Arnarstapa en hann er einnig leiðsögumaður og fer með ferðamenn á Snæfellsjökul en hann lánaði mér bílinn sinn um daginn og kíkti ég í smá bíltúr, fór og skoðaði Rauðarfeldsgjá ásmat því að fara á búðir til að skoða aðstæður þar með tilliti til lendingar og tjalsvæðis því stór hluti af þessu svæði tilheyrir þjóðgarði og má ekki tjalda hvar sem er.
Rétt rúmlega sex leytið um kvöldið eftir að allt var orðið klárt  en Örlygur hafði hjálpað mér að koma dótinu niður á bryggju og gera klárt fyrir brottför lagði ég í hann og stefndi beint á Búðir.
Það var smá gola þá og öldurnar ekki alveg dottnar niður en eftir ca hálftíma róður var komið logn og fínt í sjóinn.
Eftir ca tveggja tíma róður kom ég að hótel Búðum, fékk mér að borða samlokur sem ég fékk á hótelinu og heyrði aðeins í Guðna Páli en hann var á leiðinni til mín seinna um kvöldið.
Ég ákvað að róa aðeins lengra eða ca 10km því ég hafði nægan tíma áður en hann kæmi. En eftir ca 1km byrjaði hann að bæta í vindinn aftur og varð mjög fljótlega ferkar hvasst, vindur stóð af landi og gerði það að verkum að ferðin gekk hægt þannig að ég ákvað að koma mér í land sem fyrst og fór ég að skoða kort því nú þurfti ég finna góðan stað til að tjalda en einnig þar sem hægt væri að koma keyrandi að svo Guðni kæmist með bátinn og dótið sitt.

Eftir að hafa borðað morgunmat með Guðna daginn eftir var ákveðið að halda í hann og róa inn Snæfellsnesið en ströndinn einkennist mest af hvítum sandfjörum með skerjum hér og þar. Eftir ca klukkutíma róður var ákveðið að taka nestispásu enda bæði orðin svöng eftir að hafa pakkað niður og gengið frá öllu í bátana eftir morgunmatinn.
Við höfðum verið með vindinn nánast beint í bakið og fallið með okkur og gekk ferðin vel og eftir tæplega 20km ákváðum við að þvera Hafffjörðin því ef við færum innar með Snæfellsnesinu fengjum við vindinn á hlið í stað þess að vera með hann á skáhalt í bakið. Tókum við þá stefnuna beint á Akra en það var um 27km löng leið og gekk ferðin mjög vel fyrstu 17km, fórum hratt yfir því við vorum með ölduna, strauminn og vindinn með okkur en þegar við áttum ca 10km eftir fór hann að snúa sér og vorum við komin með vindinn í fangið og fór allt að ganga mun hægar, fórum að pæla í hvort við ættum að fara í eina eyju sem var mun vestar en Akrar til að sleppa við að róa á móti vindi en komust að þeirri niðurstöðu að það yrði betra að puða aðeins meira og komast upp að landi því það var búið að spá austan átt daginn eftir og þá yrði betra að róa með landi en að vera úti í einhverri eyju. Eftir langan 6km róður náðum við loksins landi og mikið var gott að standa upp og teygja úr sér, tala nú ekki um að pissa enda búin að halda í mér ca 4 tíma. Tókum stutta pásu og héldum svo áfram í átt að Ökrum þar sem við tjölduðum. Guðni fór strax í að týna eldivið og var kveiktur smá varðeldur sem hann svo steikti hamborgar á sem var góð tilbreytting frá þurrmat sem ég hafði verið að borða síðustu daga í ferðinni. Örlygur kíkti í smá heimsókn til okkar en hann var á leið í bæinn. Aftur áttum við góða kvöldstund saman.

Eftir að hafa borðað morgunmat og gengið frá daginn eftir var svo lagt í hann aftur og stefnan tekinn á Akranes. En að róa í Mýrarnar frá Örkrum alla leið að Borgarfirði var í einu orði sagt æðislegt. Margar eyjar sem eru grasi vaxnar með gylltum sandfjörum og grunnt allstaðar á þessu svæði og kom það einu sinni fyrir að við þurftum að standa upp og draga bátana nokkra metra því það var ekki búið að falla nægilega mikið að en þá voru þeir dregnir uppá næsta sker og tekin smá nestispása. Þetta er þannig staður að maður er ekkert að flýta sér, mikið stoppað til að njóta útsýnisins og hefði ég alveg viljað taka einn auka dag þarna. Mér leið eins og ég væri stödd einhversstaðar annar staðar enn á Íslandi þarna.
En svo kom að því að við þurftum að fara að þvera Borgafjörðin en þá hafði hann snúið sér og var farin að blása úr suð-vestri eða nánast beint inn Borgarfjörin sem var ekki gott því það var að falla út, þegar vindurinn og straumurinn mæta hvort öðru þá getur sjórinn orðið mjög úfinn sem hann reyndist svo vera en þrátt fyrir það gekk ágætlega að þvera fjörðinn, við ákváðum að stefna aðeins inná við og gera ráð fyrir því að straumurinn bæri okkur útá við sem hann svo gerði og komum við í land rúmlega 2km vestar en við stefndum á upphaflega. Tókum smá pásu og vorum að velta fyrir okkur hvort við ættum að reyna að finna okkur tjadsvæði fljótlega eða harka af okkur og fara alla leið á Akranes en það voru ca 10km eftir en svo þegar við lögðum í hann aftur þá ákváðum við bara að drífa okkur á skagann því hann hafði lægt aðeins.
Lentum í fjörunni undir tjaldsvæðinu um níu leytið, byrjuðm á að drösla bátunum uppá land og ræða við tjaldvörðinn um hvar við mættum tjalda því við voru ekki alveg við tjaldsvæðið, þetta endaði svo með því að við tjölduðum inná milli hjólahýsa, fengum okkar að borða á sjoppunni hinum megin við götuna og vorum við eins og hungraðir úlfar þegar við tróðum matnum ofan í okkur enda langur og erfiður dagur að baki. En hér eftir ætla ég að reyna að forðast tjaldsvæði eins og heitan eldinn, ekki það ég hafi eitthvað útá tjaldsvæðið á Akranesi að setja heldur eftir svona langa og erfiða daga þá vill maður komast í ró og næði til að geta hvílt sig en það er alltaf ákveðið ónæði á svona stöðum en mikið var gott að komast í sturtu.
Um níu leytið morguninn eftir kom svo hann Eymundur kayakræðari sem ætlaði að róa með okkur frá Akranesi til Gróttu. Þannig að við vorum þrjú sem lögðum í hann um tíu leytið og tókum stefnun á Hallgrímskirkju til að byrja með, gerðum ráð fyrir því að straumurinn mundi bera okkur aðeins útá við því það var að falla út. Þegar við áttum svo ca 9km eftir var stefnan tekin á Gróttu og komum við á áfangastað um tvöleytið. Það var frekar sérstök en jafnframt góð tilfinning að róa inn víkina hjá Gróttu og sjá allt fólkið sem var komið þangað til að taka á móti mér og yljaði það mér um hjartaræturna.

Nú er ég stödd á Seltjarnarnesi og var búin að ákveða að taka tveggja daga pásu. Svona til gamans þá er ég búin að róa 530km frá því að ég lagði af stað frá Ísafirði og er það búið að taka mig um 93 klukkutíma. Eins er ég búin að vera með sól síðustu 12 daga og hef verið að nota vörn nr 50 alla daga og er byrjuð að flagna í andlitinu og það verður kærkomið að taka smá pásu en ég ætla að vera með fyrirlestur á Akranesi annað kvöld og ætla ég að nota tímann í að þvo allann búnað, fatnað og gera klárt fyrir þriðjudaginn en eins og veðurspáin er í dag þá er ekki útlit fyrir að ég komist af stað fyrr en á mivikudaginn, jafnvel fimmtudaginn.

 

Read More